Viggó Kristjánsson hefur verið markahæstur í deildinni í talsverðan tíma en hann hefur skorað 130 mörk í 19 leikjum fyrir Stuttgart. Hann er níu mörkum á undan næsta manni, Robert Weber hjá Nordhorn.
Bjarki Már Elísson og Ómar Ingi Magnússon eru einnig á listanum yfir fimm markahæstu menn deildarinnar. Bjarki er með 119 mörk fyrir Lemgo og Ómar Ingi 117 fyrir Magdeburg, líkt og Marcel Schiller hjá Göppingen.
Þegar horft er til stöðu í deildinni er Ómar Ingi efstur markahrókanna með Magdeburg í 2.-3. sæti, með 26 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Flensburg sem er með Alexander Petersson í sínum röðum. Stuttgart er með 17 stig í 13. sæti og Lemgo sæti neðar með 16 stig.
Schiller með flest mörk að meðaltali
Mismunandi er hve marga leiki liðin í deildinni hafa spilað en Evrópumeistararnir í Kiel hafa til að mynda aðeins spilað 14 leiki. Þeir eru í 4. sæti með 25 stig og eiga 3-4 leiki til góða á liðin fyrir ofan sig.
Það þýðir jafnframt að Niclas Ekberg, sænski hornamaðurinn hjá Kiel, gæti unnið sig upp markaskoraralistann en hann er kominn með 92 mörk.
Þegar horft er til meðalfjölda marka í leik hefur fyrrnefndur Schiller skorað flest eða 6,9 mörk í leik. Viggó er með 6,8, Weber 6,7 og þeir Bjarki og Ekberg 6,6 mörk að meðaltali í leik. Ómar Ingi er svo með 6,5 mörk að meðaltali í leik.
Lemgo sækir Balingen heim annað kvöld, Stuttgart mætir Leipzig á útivelli á sunnudag og þá tekur Magdeburg á móti Coburg.