Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í Hafnarfirði var karlmaður handtekinn fyrir að veitast að fólki en hann var í mjög annarlegu ástandi að sögn lögreglu og látinn sofa úr sér vímuna í fangaklefa.
Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Breiðholti og vistaður í fangaklefa vegna eignaspjalla og óskað eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar úr verslun í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Var málið afgreitt á staðnum með vettvangsskýrslu.
Töluvert var um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna í nótt. Þar af var einn handtekinn í Grafarvogi sem reyndist vera undir áhrifum fíkniefna auk þess að vera með vímuefni meðferðis. Ökumaðurinn er undir lögaldri og var málið afgreitt með aðkomu foreldra en hann var látinn laus að sýnatöku lokinni.
Alls voru 95 mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 til 5 í nótt. Þar af voru tíu hávaðakvartanir.