Rúv greinir frá þessu þar sem haft er eftir Margeiri Sveinssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni að samskipti í síma hins látna hafi verið skoðuð sem leiddi til þess að mennirnir voru handteknir. Hann vill þó ekki gefa upp í samtali við Rúv hvort andlátið sé rannsakað sem manndráp en til rannsóknar sé hvernig maðurinn hlaut þá áverka sem hann var með.
Margeir vill í samtali við Rúv ekki heldur fara nánar út í símasamskiptin en segir ljóst að mennirnr hafi eitthvað þekkst.
Hinn látni, íslenskur karlmaður fæddur árið 1990, lést af sárum sínum í gær en grunur leikur á að bíl hafi verið ekið á hann.
Lögreglu barst tilkynnig um málið rétt fyrir klukkan níu að morgni föstudagsins langa. Þá hafði kærasta mannsins komið að honum í sárum sínum á bílaplani fyrir utan heimili þeirra við Vindakór í Kópavogi. Málsatvik voru í fyrstu nokkuð óljós en þrír rúmenskir karlmenn voru handteknir í tengslum við máliðí gær, og tveimur sleppt í framhaldinu.
Maðurinn hlaut talsverða höfuðáverka en rannsókn lögreglu miðar meðal annars að því hvernig hann hlaut áverkana. Grunur leikur á að bíl hafi verið ekið á manninn, eða að hann hafi dregist eftir bifreiðinni. Fyrir dómi í morgun sagði hinn grunaði að um hafi verið að ræða slys. Hann var úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.