Verkið tekur til 2,7 kílómetra langs kafla og er liður í endurbyggingu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Þvera á Þorskafjörð með 260 metra langri steinsteyptri brú sem tengd verður við land með vegi á uppfyllingu.
Suðurverk átti lægsta boð, upp á liðlega 2,2 milljarða króna, en í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá verksamninginn undirritaðan í hádeginu. En hvenær hefjast framkvæmdir?
„Bara fljótlega í næstu viku,“ svarar Dofri Eysteinsson, eigandi og framkvæmdastjóri Suðurverks.

Suðurverksmenn eru nýbúnir að klára Dýrafjarðargöng en hafa einnig reynslu af því að þvera vestfirska firði.
„Við þveruðum Kjálkafjörð og Mjóafjörð á sínum tíma.“
Þverun Þorskafjarðar ein og sér styttir Vestfjarðaveg um níu kílómetra en íbúar fjórðungsins sjá fram á miklar samgöngubætur.
„Gríðarlegar samgöngubætur. Við erum að horfa á, með Dýrafjarðargöngum og þessari framkvæmd, þegar hún verður fullfrágengin, þá erum við að stytta leiðina Ísafjörður-Reykjavík um fimmtíu kílómetra. Og það náttúrlega hefðu einhvern tímann þótt tíðindi,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri.
Samningurinn er einn sá stærsti sem Vegagerðin gerir í ár en verkið kallar á mikinn mannskap.
„Þetta geta verið svona 35-40 manns meðan allt er á fullu, brúarbyggingin og það allt saman,“ segir Dofri en Eykt smíðar sjálfa brúna sem undirverktaki.

Áætlað er að Þorskafjarðarbrúin verði opnuð umferð eftir rúm þrjú ár, sumarið 2024. Mesta spennan ríkir þó um annan verkþátt, sem framundan er að bjóða út; þann sem liggur um Teigsskóg, en samningum við landeigendur er ólokið. En stefnir þar í eignarnám?
„Það er bara ekki komin niðurstaða í það. Meðan við erum að semja þá erum við að semja og horfum bara björt inn í það,“ svarar Bergþóra vegamálastjóri.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: