Vikublaðið greindi svo fyrst frá því í gær að óvenjuleg atburðarás hafi farið af stað þegar söngkonan Molly fékk ekki tímabundið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum og getur þar af leiðandi ekki komið fram á hátíðinni þar sem til stóð að hún myndi flytja lagið. Þess í stað var ákveðið að taka upp myndband á Húsavík sem sýnt verður á hátíðinni. Molly er komin til landsins en framleiðslufyrirtækið True North framleiðir myndbandið í samstarfi við Netflix og Örlyg Hnefil Örlygsson.
Leikstjórinn Egill Arnar Egilsson, betur þekktur sem Eagle Egilsson, leikstýrir myndbandinu en tökur fara fram á Húsavík í dag. Krstján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir í samtali við Vikublaðið að til standi að hafa flugeldasýningu í atriðinu sem þurfti að fá undanþágu fyrir. Því megi íbúar Húsavíkur búast við því að verða varir við flugelda síðdegis í dag og eitthvað fram eftir kvöldi. Tökur munu fara fram á hafnarsvæðinu á Húsavík.
Vart ætti að fara fram hjá neinum að eitthvað mikið stendur til á Húsavík í dag en rauður dregill liggur nú niður eftir hluta Garðarsbrautar á Húsavík líkt og sjá má á þessari mynd sem Bæjarprýði ehf. deildi á Facebook í dag.
Fréttin hefur verið uppfærð.