Fótbolti

Sveindís hetjan er Sif sneri aftur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur skorað tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum fyrir Kristianstad.
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur skorað tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum fyrir Kristianstad. Getty/Matteo Ciambelli

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði sigurmark Kristianstad í 2-1 sigri á Djurgården í 2. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Þrjár íslenskar landsliðskonur voru í eldlínunni.

Sveindís Jane skoraði eina markið í 1-1 jafntefli Kristianstad gegn Eskiltuna United í fyrstu umferðinni en Kristianstad átti sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu í dag. Guðrún Arnardóttir var þar í heimsókn ásamt liðsfélögum sínum í Djurgården.

Guðrún byrjaði leikinn, rétt eins og Sveindís í liði Kristianstad, en það voru gestirnir sem náðu forystunni með marki Nellie Lilja á 37. mínútu. 1-0 stóð í hléi en þegar aðeins fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum jafnaði Mia Carlsson leikinn fyrir heimakonur eftir fyrirgjöf Sveindísar Jane frá hægri.

1-1 stóð allt fram á 83. mínútu þegar Sveindís Jane fékk háa sendingu inn fyrir vörn Djurgården og vippaði boltanum snyrtilega yfir markvörðinn Keley Daugherty sem kom askvaðandi á móti henni.

Undir lok leiks kom landsliðskonan Sif Atladóttir inn í lið Kristianstad og spilaði uppbótartímann. Leikurinn er hennar fyrsti síðan 2019 en hún var í barneignarleyfi alla síðustu leiktíð.

Kristianstad vann 2-1 og náði þar með í sinn fyrsta sigur á tímabilinu. Liðið er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina.

Landsliðsmiðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir spilaði þá allan leikinn fyrir Rosengård sem vann öruggan 3-1 heimasigur á Hammarby. Rosengård er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×