„Þessi einstaklingar tengjast fyrri smitum sem við höfum rætt um. Nokkrir af þeim fóru nýlega í sóttkví. Þetta mun sveiflast svona til og frá, innan sóttkvíar og utan, næstu daga. Við erum ekki alveg komin fyrir vind í þessu,“ segir Þórólfur Guðnason.
Barn í fyrsta bekk í Flúðaskóla greindist með veiruna í gær og var ákveðið að loka öllum skólum og íþróttamannvirkjum þar fram yfir helgi. Þrír eru nú í einangrun í Hrunamannahreppi.
200 voru skimaðir í Ölfusi á þriðjudag en enginn þeirra greindist með veiruna. Hins vegar greindist einn með veiruna í Þorlákshöfn í gær og eru nú fjórtán í einangrun í sveitarfélaginu. Stefnt er að því að opna stofnanir sveitarfélagsins aftur eftir helgi.