Ellen er sögð hafa haft það lengi í huga að hætta með þáttinn en hún tilkynnti starfsmönnum sínum endalokin þann í gær, 11. maí. Þá mun hún ræða ákvörðunina við þáttastjórnandann Opruh Winfrey í þætti sínum á morgun.
„Þegar þú ert skapandi manneskja þarftu alltaf að skora á sjálfa þig – og eins frábær og þátturinn er, og hvað hann er skemmtilegur, þá er hann ekki lengur áskorun fyrir mig,“ sagði DeGeneres í samtali við The Hollywood Reporter.
DeGeneres hefur íhugað það lengi að hætta með þáttinn en hún ræddi það í viðtali við New York Times árið 2018. Þá greindi hún frá því að eiginkona hennar, Portia de Rossi leikkona, hafi hvatt hana til þess að segja skilið við þáttinn. Bróðir hennar og framleiðendur hjá Warner Bros., hafi hins vegar hvatt hana til að halda áfram.
Í kjölfarið skrifaði DeGeneres undir samning um þrjár þáttaraðir til viðbótar en er hún sögð hafa gert starfsmönnum sínum ljóst að það yrðu síðustu þáttaraðirnar sem hún myndi stjórna.
Meira en þrjú þúsund þættir af Ellen DeGeneres Show hafa farið í loftið og hefur hún tekið viðtöl við meira en 2.400 stjörnur.