Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari og prófessor ætlar að mæta klukkan 10 og andmæla Jóni Steinari Gunnlaugssyni, sínum gamla starfsbróður og hrekja ummæli hans um klíkuskap dómara og ámælisverð vinnubrögð í Hæstarétti. Þarna ber nýrra við því Jón hefur mátt una því að gagnrýni hans væri ekki svarað í gegnum tíðina.
Ásgeir Brynjar Torfason dr. í fjármálafræði ætlar að fjalla um alveg nýtt fyrirbrigði í hagfræðinni, Bidenomics sem er heiti á umfangsmiklum efnahagsaðgerðum Joe Bidens Bandaríkjaforseta. Hversu mikið nýjabrum er af þessum aðgerðum? Við ræðum það og áhrif þess á heimsbyggðina ef vel tekst til.
Lögmennirnir og alþingiskonurnar Helga Vala Helgadóttir og Sigríður Á. Andersen ætla að ræða kynferðisafbrot, refsingar við þeim, sönnunarbyrði og stöðu þolenda í dómskerfinu.
Í lok þáttar mætast þau Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF og Bjarkey Olsen þingkona VG. SAF hafa gefið út Vegvísi um viðspyrnu til ársins 2025 og vilja á kosningasumri knýja stjórnvöld til aðgerða samkvæmt þeim vegvísi. Vísar hann þangað sem við viljum fara? Þar liggur efinn.