Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna kom til landsins í gær og fundar með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra klukkan tíu í Hörpu. Að þeim fundi loknum hefur verið boðað til blaðamannafundar í Hörpu og verður sá fundur í beinni útsendingu á Vísi.
Mótmælendum fjölgar hægt og rólega fyrir utan tónlistarhúsið, þar sem utanríkisráðherrann verður í allan dag. Ætla má að um 100 séu á staðnum.

Á meðal mótmælenda er hinn heimsfrægi íslenski málsvari Palestínu, Matthías Tryggvi Haraldsson söngvari Hatara. Tvö ár eru liðin frá því að hann dró upp fána ríkisins í beinni útsendingu á Eurovision í Ísrael.
Bandaríkin og Ísrael eiga sögulega séð í nánu hernaðarlegu samstarfi og Bandaríkin leggja Ísraelsher til mikla fjármuni árlega í því skyni.
Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í nótt að hann styðji kröfur um vopnahlé á Gasa-svæðinu þar sem ísraelski herinn hefur nú látið sprengjum rigna yfir íbúðabyggð í átta daga og Hamas-liðar hafa sent eldflaugar yfir til Ísraels á móti.
Biden er sagður hafa rætt við Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraela og greint honum frá því að Bandaríkjamenn ásamt Egyptum og fleiri þjóðum væru nú að vinna að því að koma á slíku hléi.
Bandaríkjamenn beittu hinsvegar enn og aftur neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og stöðvuðu yfirlýsingu þess efnis að átökunum skyldi hætt tafarlaust.