Afar lítil úrkoma hefur verið á svæðinu síðustu vikur og er áfram þurrkatíð í kortunum. Þær litlu skúrir sem hafa komið síðastliðna daga hafa ekki verið nægilegar til að bleyta jarðveginn upp heldur hefur vætan gufað hratt upp. Þá hefur næturkuldi heldur ekki hjálpað til.

Þegar hættustig vegna gróðurelda er í gildi á svæði er bann þar við öllum opnum eldi. Almannavarnir ítreka í tilkynningu að það hafi líklega aldrei verið mikilvægara en nú að fara sérstaklega varlega með eld á grónum svæðum, sleppa grillnotkun og notkun á verkfærum sem hitna.
„Sumarbústaðaeigendur í grónu landi eru hvattir til að vera undir það búnir að ráða við minniháttar eld, því hver sekúnda getur skipt máli. Hægt er að verja hús og nánasta umhverfi og slökkva elda sem eru á byrjunarstigi með lágmarksútbúnaði eins og eldklöppum og garðslöngu. Öryggi viðstaddra er ávallt mikilvægast við slökkvistörf og kalla skal strax út viðbragðsaðila með því að hringja í 112,“ segir í tilkynningunni.
Þetta eru rétt viðbrögð við gróðureldum samkvæmt leiðbeiningum almannavarna:
Fyrstu viðbrögð við gróðureldi eru að hringja í Neyðarlínuna 112, greina frá því hvar eldurinn er og lýsa staðsetningu og staðháttum.
Leggðu mat á aðstæður og reyndu að slökkva eldinn sem fyrst ef aðstæður leyfa án þess að taka áhættu, hafðu eigið öryggi alltaf í forgangi.
Sækja skal að eldi undan vindi þannig að reykmengun hindri ekki yfirsýn og aðgerðir. Reykur frá gróðureldum í of miklu magni getur verið lífshættulegur.
Klöppur, skóflur eða önnur áhöld og vatn ættu alltaf að vera tiltæk.
Sé ekki ráðið við eldinn, t.d. vegna hvassviðris, skal gera ráðstafanir og mynda eldvarnarlínu í nægilegri fjarlægð undan vindi, til dæmis með því að bleyta í gróðri eða ryðja honum í burtu.
Það sem almenningur og sumarhúsaeigendur eru beðnir um að hafa í huga:
Ekki kveikja eld innan sem utandyra (vinnuvélar, kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira).
Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill þar sem gróður er þéttur.
Kanna flóttaleiðir við sumarhús.
Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun.
Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista.
Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta).
Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er.