Þetta er annað árið í röð sem Þróttarar skora fimm mörk á Samsung-vellinum. Í fyrra gerðu Stjarnan og Þróttur 5-5 jafntefli í ótrúlegum leik.
Þrótturum gekk öllu betur að verja markið sitt í leiknum í gær en voru jafn hættulegar fram á við og í leiknum í fyrra.
Á 16. mínútu kom Ólöf Sigríður Kristinsdóttir Þrótti yfir eftir fyrirgjöf Andreu Rutar Bjarnadóttur. Á 34. mínútu fiskaði Ólöf Sigríður svo vítaspyrnu sem Katherine Cousins skoraði úr. Staðan í hálfleik var 0-2, Þrótti í vil.
Cousins skoraði sitt annað mark og þriðja mark Þróttar á 53. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Andreu.
Hornspyrna Andreu skilaði aftur marki á 61. mínútu þegar varamaðurinn Lea Björt Kristjánsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild. Fimmta markið kom á 75. mínútu þegar Shaelen Brown skoraði eftir stungusendingu Sheu Moyer.
Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir lagaði stöðuna fyrir Stjörnuna á 85. mínútu þegar hún skoraði sitt þriðja mark í sumar. Lokatölur 1-5, Þrótti í vil. Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Þróttur er í 4. sæti deildarinnar með sex stig en Stjarnan er í því sjötta með fjögur stig.
Fimmtu umferð Pepsi Max-deildarinnar lýkur með fjórum leikjum í kvöld. Stórleikur Vals og Breiðabliks verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 18:00. Farið verður yfir 5. umferðina í Pepsi Max-mörkunum á Stöð 2 Sport 4 klukkan 22:00.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.