Ólafur er frummælandi að þingsályktunartillögu þar sem verið er að fjalla um réttinn til þess að annast veikt barn eða slasað barn, í rauninni rétt barnsins til þess að fá umönnun. Hann ræddi þetta í nýjasta þættinum af Spjallið með Góðvild sem birtist hér á Vísi og á helstu hlaðvarpsveitum í dag.
Réttur barna mismunandi
„Hugmyndin kviknar í rauninni upp úr því að ég fer að velta því fyrir mér af hverju það sé þannig að áherslan í þessu réttindamáli barna, að fá umönnun foreldra eða forsjáraðila, af hverju þessi réttur sé ekki barnsins, af hverju rétturinn er foreldranna.“
Þetta segir hann að valdi mismunun.
„Fólk öðlast þessi réttindi yfirleitt í kringum verkalýðshreyfingu eða þátttöku í stéttarfélagi. Það gerir það eiginlega sjálfkrafa að verkum að réttur barna getur verið mjög mismunandi. Þetta bitnar einna mest á börnum sem að eru langveik eða hafa átt við langvarandi veikindi, eða þurft á mjög mikilli aðstoð að halda við lífið og tilveruna. Þau eru ekki jafn sett vegna þess að foreldrar þeirra geta ekki valið sér störf eða menntun út frá því hvar væri mestur réttur til að annast um börn sín. Það er miklu fremur þannig að fólk velur sér starfsferil og síðan fæðast börnin.“
Himinn og haf á milli
Ólafur segir einbirni með tvo foreldra í góðu stéttarfélagi geta fengið allt að 20 til 30 daga á ári af umönnun í veikindum en barn í fjögurra systkina hópi hjá einstæðu foreldri gæti farið niður í tvo eða þrjá umönnunardaga með foreldri sínu ef systkini hefur líka þurft á veikindadögum að halda.
„Þarna er himinn og haf á milli og mér finnst að það þurfi að leiðrétta þetta.“
Þetta væri annars vegar gert með þingsályktunartillögu og hins vegar með lagafrumvarpi sem myndi tryggja þennan rétt barnsins til umönnunar forsjáraðila í veikindum eða eftir slys.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild í spilaranum hér fyrir neðan.