Fótbolti

Parma til­kynnti Buf­fon með frá­bæru kynningar­mynd­bandi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Buffon er kominn á heimaslóðir.
Buffon er kominn á heimaslóðir. Daniele Badolato/Getty Images

Ítalska knattspyrnuliðið Parma staðfesti í dag að markvörðurinn Gianluigi Buffon væri kominn á heimaslóðir. Það gerði félagið með mögnuðu kynningarmyndbandi þar sem það var staðfest að „Superman“ væri kominn heim.

Hinn 43 ára gamli Buffon er uppalinn hjá Parma og eftir að samningur hans við Juventus rann út fóru orðrómar á kreik um að hann gæti spilað með Parma í Serie B, næstefstu deild á Ítalíu, á næstu leiktíð.

Þeir orðrómar voru staðfestir í dag er Parma tilkynnti leikmanninn með pompi og prakt. Hér að neðan má sjá frábært kynningarmyndband félagsins.

Buffon lék með Parma þegar liðið var talið eitt það áhugaverðasta á Ítalíu. Alls lék hann 168 deildarleiki með liðinu frá árinu 1995 til 2001. Með Buffon innanborðs vann liði Coppa Italia [ítalska bikarinn], Ofurbikar Ítalíu sem og UEFA-bikarinn.

Þaðan fór hann til Juventus þar sem hann bætti enn við verðlaunasafnið og þá stóð hann milli stanganna er Ítalía varð heimsmeistari árið 2006.

Buffon er afar reynslumikill markvörður en samkvæmt vefsíðunni Transfermarkt hefur hann spilað 930 deildar, bikar og Evrópuleiki á ferlinum, þar af eru 657 í Serie A. Þá spilaði hann 176 A-landsleiki á sínum tíma.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×