Þá samþykkti allsherjarþing SÞ ályktun þar sem mjanmarski herinn er fordæmdur vegna valdaránsins, þegar lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn landsins var bolað frá völdum í febrúar. Þá var kallað eftir því að herinn sleppti pólitískum föngum lausum, þar á meðal Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörnum leiðtoga landsins. Þá eigi að vera bundinn endir á ofbeldi gegn friðsælum mótmælendum.
Ályktunin er ekki bindandi í laganna skilningi en er talin þrunginn pólitískri merkingu.
„Hættan á útbreiddu borgarastríði er raunveruleg,“ sagði Christine Schraner Burgener, sérstakur sendiherra SÞ í Mjanmar, á fundi allsherjarþingsins. „Það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða eins fljótt og hægt er. Með hverjum klukkutíma sem líður verður erfiðara að koma lýðræðinu aftur á.“

119 ríki studdu ályktunina en Hvíta-Rússland var eina ríkið sem greiddi atkvæði gegn ályktuninni. 36 önnur ríki sátu hjá í atkvæðagreiðslunni, þar á meðal Rússland og Kína, sem eru þau tvö ríki sem eiga í mestum vopnaviðskiptum við Mjanmar.
Mörg þeirra ríkja sem sátu hjá sögðu málið innanríkismál Mjanmar, en önnur gagnrýndu að í ályktuninni væri hvergi minnst á blóðuga aðför hersins gegn Róhingja-múslimum fyrir fjórum árum síðan þegar tæp milljón manns þurfti að flýja landið.
Kyaw Moe Tun, sendiherra Mjanmar til Sameinuðu þjóðanna og fulltrúi lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar landsins, gagnrýndi hve langan tíma það tók allsherjarþingið að samþykkja „útþynnta“ ályktunina, eins og hann kallaði hana.