Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða meira en milljón sænskar krónur, eða um 14,4 milljónir íslenskra króna, í miskabætur. Maðurinn var jafnframt ákærður fyrir að hafa nauðgað fjórum börnum til viðbótar en var sýknaður af þeim ákæruliðum. Sænska ríkisútvarpið greinir frá.
Brotin voru framin í Rikneby í Svíþjóð frá árinu 2016 til júní á síðasta ári. Talið er að maðurinn hafi boðið börnunum einhvers konar gjafir til að lokka þau heim til sín þar sem hann braut á þeim. Tólf börn voru brotaþolar í dómsmálinu en brot gegn einu barni til viðbótar hafði verið tilkynnt til lögreglu. Foreldrar barnsins vildu þó ekki fara með málið fyrir dómstóla.
Yngsta barnið sem bar stöðu brotaþola í málinu var eins árs þegar maðurinn braut á því. Börnin bjuggu öll í sama hverfi og karlmaðurinn og talið er að hann hafi verið þekktur meðal íbúa hverfisins og vel liðinn.
Maðurinn var handtekinn síðasta sumar og húsleit framkvæmd á heimili hans. Þar fannst gríðarlegt magn barnaníðsefnis og hefur lögreglan lýst því að hún hafi aldrei lagt hald á jafn mikið barnaníðsefni í einu. Við nánari skoðun á efninu kom í ljós að maðurinn hafði framleitt það sjálfur. Þá fannst einnig gríðarlegt magn af barnaníðsefni á tölvunni hans, sem hann hafði halað niður. Meira en 2,5 milljónir skjala með barnaníðsefni fundust á heimili hans.