Erlent

Búa sig undir aðra hitabylgju vestanhafs

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Kaliforníu hafa verið beðnir um að fara sparlega með vatn.
Íbúar Kaliforníu hafa verið beðnir um að fara sparlega með vatn. AP/David Crane

Íbúar og ráðamenn vesturstrandar Bandaríkjanna undirbúa sig nú fyrir aðra hitabylgju um helgina. Stutt er síðan hitamet voru slegin víðsvegar um norðvesturströnd Bandaríkjanna og vesturströnd Kanada í gífurlegra öflugri hitabylgju sem banaði hundruð manna.

Ekki er búist við því að þessi hitabylgja verði jafn öflug og sú síðasta, þar sem hitinn varð mestur tæpar 50 gráður í Bresku-Kólumbíu. Þrátt fyrir það er hætta talin á ferðum.

Í Kaliforníu hefur fólk verið beðið um að spara vatn og er fylgst með íbúum sem þykja í viðkvæmri stöðu.

Í frétt Washington Post er haft eftir sérfræðingum að bylgjur sem þessar megi rekja við veðurfarsbreytinga af mannavöldum. Gífurlega sjaldgæf veðurfyrirbæri séu að eiga sér stað mun oftar en hingað til hefur þekkst og sú þróun muni halda áfram.

Tíðni hitabylgja hafi aukist og alvarleiki þeirra sömuleiðis.

Í Dauðadalnum svokallaða í Kaliforníu, einum heitasta stað jarðarinnar, er búist við því að hitinn fari vel yfir fimmtíu gráður. Veðurfræðingar segja að bylgjan muni hefjast í Kaliforníu um helgina og færa sig svo norður með ströndinni í næstu viku.

Hópur alþjóðlegra vísindamanna birti í gær skýrslu þar sem þeir segja að hitabylgja síðasta mánaðar hefði verið ómögulega án veðurfarsbreytinga af mannavöldum. Samkvæmt niðurstöðum hópsins eru hitabylgjur minnst 150 sinnum líklegri en áður.

Í frétt AP fréttaveitunnar er rætt við veðurfræðin í Washington-ríki sem segir skýrsluna ítreka að veðurfarsbreytingar séu að valda dauðsföllum. Nú þegar sé ekkert veðurfyrirbæri sem valdi dauða fleiri Bandaríkjamanna en hiti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×