Arion banki hefur hækkað vexti á óverðtryggðum lánum frá síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans um 0,1%, Landsbankinn um 0,15% og Íslandsbanki um 0,25%. Þetta þýðir að mánaðarleg greiðsla á þrjátíu milljón króna óverðtryggðu fasteignaláni á breytilegum vöxtum hækkar um 2.500 krónur hjá Arion, um 3.700 krónur hjá Landsbanka og 6.200 hjá Íslandsbanka.
Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptabönkunum þremur hafa fleiri en áður sótt um að festa vexti á lánum sínum eftir síðustu vaxtaákvörðun Seðlabanka.
„Þegar væntingar eru um hækkandi vexti sjáum við fleiri sem vilja festa vexti og þegar væntingar eru um lækkun eru fleiri sem vilja breytilega vexti. Hins vegar eru fastir vextir oft hærri en þeir breytilegu,“ segir Björn Berg Gunnarsson deildarstjóri Greiningar Íslandsbanka.

Hann segir Seðlabankann búast við frekari vaxtahækkunum.
„Við erum að spá frekari vaxtahækkunum eftir að hafa fylgst með Seðlabankanum og hvernig spár greiningaraðila hljóma . Flestar spár um vaxtahækkanir eru þó tiltölulega hóflegar,“ segir Björn.
Björn segir afar mikilvægt að halda verðbólgu niðri.
„Takist hér að ná góðum tökum á verðbólgu eins og fyrir Covid þá er engin ástæða til að ætla að vextir hér þurfi að vera mjög háir,“ segir Björn.
Björn mælir með að lántakendur fylgist vel með vaxtaákvörðunum fjármálastofnana og hverjar væntingar eru því greiðslubyrði óverðtryggðra fasteignalána fylgi þeim.