Fótbolti

Viðar Ari á skotskónum í sigri Sandefjord

Valur Páll Eiríksson skrifar
Viðar Ari hefur átt glimrandi tímabil í Noregi.
Viðar Ari hefur átt glimrandi tímabil í Noregi. vísir/getty

Þrír Íslendingar voru í eldlínunni er fjórir leikir fóru fram í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Viðar Ari Jónsson var sá eini sem fagnaði sigri en hann skoraði í þokkabót.

Viðar Ari hefur fundið sig vel á hægri kantinum hjá liði sínu Sandefjord í sumar og hann byrjaði þar er það heimsótti Odd Grenland í kvöld. Staðan var 1-1 þegar Viðar Ari lagði upp mark fyrir félaga sinn Alexander Tveter undir lok fyrri hálfleiks og staðan 2-1 í hléi.

Eftir aðeins fimm mínútna leik í síðari hálfleiknum skoraði Viðar svo sjálfur, sitt fimmta mark í deildinni, til að tvöfalda forystu gestanna. Odd minnkaði muninn undir lok leiks en Sandefjord hélt út og vann 3-2 sigur.

Sigurinn þýðir að Sandefjord jafnar Odd að stigum, með 19, í deildinni, rétt eins og Strömgodset sem þurfti að þola tap.

Ari Leifsson spilaði þar allan leikinn í vörn Strömgodset sem tapaði 2-1 fyrir Haugesund á útivelli en Valdimar Þór Ingimundarson var ekki í leikmannahópi Strömgodset.

Strömgodset er með besta markatölu liðanna þriggja og er í 8. sæti, Sandefjord er í því níunda en Odd í tíunda af 16 liðum.

Emil Pálsson kom inn á sem varamaður þegar um hálftími var eftir af leik Lilleström og Sarpsborgar. Emil og félagar þurftu að sætta sig við 2-0 tap fyrir Lilleström.

Sarpsborg er í 12. sæti deildarinnar með 14 stig, fjórum stigum frá Tromsö í 14. sæti, sem er umspilssæti um fall úr deildinni. Fimm stig eru niður í Stabæk í efra fallsætinu en Stabæk vann 2-1 sigur á Mjöndalen í fjórða leik kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×