Svíþjóð, Ástralía og Kanada eru komin áfram í undanúrslitin. Svíar voru eina liðið sem vann í venjulegum leiktíma, Ástralar unnu í framlengingu og þær kanadísku í vítakeppni. Það var framlengt í leik Bandaríkjanna og Hollands.
Sigurvegarinn úr leik Bandaríkjanna og Hollands mætir Kanada í undanúrslitum keppninnar en í hinum undanúrslitaleiknum mætast síðan Ástralía og Svíþjóð.
Svíar héldu sigurgöngu sinni áfram með 3-1 sigri á heimastúlkum í Japan. Stina Blackstenius, Magdalena Eriksson og Kosovare Asllani skoruðu mörkin í fjórða sigri sænska liðsins í röð á leikunum. Svíar komust yfir á 7. mínútu en Japanar jöfnuðu sextán mínútum síðar. Sænska liðið skoraði síðan tvö mörk í seinni hálfleik og tryggði sér sigurinn.
Kanada sló út Brasilíu í vítakeppni eftir markalausar 120 mínútur. Stórstjarnan Christine Sinclair klikkaði reyndar á sinni spyrnu en allar hinar kanadísku stelpurnar skoruðu. Andressa og Rafaelle klikkuðu á síðustu tveimur vítaspyrnum Brassana og Kanada vann vítakeppnina 4-3.
Það var líka framlengt í leik Bretlands og Ástralíu en þar vantaði ekki mörkin. Ástralía (1-0) og Bretland (2-1) komust bæði yfir í venjulegum leiktíma en honum lauk með 2-2 jafntefli. Ástralar komust í 4-2 í framlengingunni áður en Bretar minnkuðu muninn. Bretar klikkuðu á vítaspyrnu í stöðunni 2-2. Ellen White skoraði öll þrjú mörk Breta en Sam Kerr var með tvö mörk fyrir ástralska liðið.