Innlent

Ferðamaður fylgdi Google Maps og lenti í ógöngum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ferðamaðurinn sagði Google Maps hafa sýnt sér styttri leið að hóteli sínu.
Ferðamaðurinn sagði Google Maps hafa sýnt sér styttri leið að hóteli sínu. Getty

Erlendur ferðamaður sem ætlaði á Hótel Ásbrú í Reykjanesbæ þurfti aðstoð lögreglu eftir að hafa lent í ógöngum sem meðal annars má rekja til Google Maps. Maðurinn hafði slegið áfangastað sinn inn í forritið og fengið upp styttri leið að hótelinu.

Lögreglunni barst svo hjálparbeiðni frá honum þar sem hann var kominn inn á þröngan og stórgrýttan vegarslóða á Vogarstapa.

Í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að maðurinn hafi verið á bílaleigubíl af gerðinni Toyotu Yaris og þegar lögregluþjóna bar að garði hafi bílinn verið „búinn á því“, auk þess sem eitt dekk hafi verið sprungið.

Lögregluþjónar aðstoðuðu manninn og gerðu bílaleigunni sem á bílinn viðvart.

Þá segir lögreglan frá því að koma hafi þurft konu til aðstoðar sem hafði snúið sig á fæti við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Hún hafi ekki verið göngufær og hafi verið hjálpað aftur niður á bílastæði.

Einnig segir lögreglan að töluvert hafi verið um umferðaróhöpp í umdæminu á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Meðal annars hafi orðið bílvelta á Reykjanesbraut þar sem ökumaður var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík. Þá hafi bíl verið ekið gegn rauðu ljósi í Keflavík svo hann lenti í hlið annars bíls. Engan sakaði í því slysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×