Andrea Staskova kom Tékkum í forystu á tíundu mínútu áður en Chara Charalambous setti boltann í sitt eigið net tveimur mínútum síðar og breytti stöðunni í 2-0.
Kamila Dubcova skoraði þriðja mark Tékka eftir 25 mínútna leik, og Tereza Krejcirikova sá til þess að staðan var 4-0 þegar að gengið var til búningsherbergja.
Tvö mörk frá Lucie Martinkova og eitt frá Andrea Staskova á fyrstu tuttugu mínútum seinni hálfleiksins sáu til þess að staðan var 7-0 fyrir seinustu 25 mínúturnar, en það var svo Klara Cvrckova sem skoraði áttunda og seinasta mark Tékka á þriðju mínútu uppbótartíma.
Bæði þessi lið hafa nú leikið tvo leiki í riðlinum, en Tékkar eru sem stendur á toppnum með fjögur stig og álitlega markatölu eftir leik dagsins. Kýpur er hins vegar enn án stiga í neðsta sæti.