Ratcliffe heldur úti Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi, verkefni sem hófst árið 2019 og er ætlað að styðja við íslenska laxastofninn.
Málþing á vegum verkefnisins fór fram í dag og var Ratcliffe að sjálfsögðu meðal gesta.
Þar var farið yfir nýjustu gögn úr rannsóknum á villta laxastofninum.
Vondar fréttir af stofninum
En þar var lítið sem ekkert um góðar fréttir.
„Þetta eru fyrst og fremst vondar fréttir, ekki góðar. Og ef við lítum á það sem hefur átt sér stað hjá Norður-Atlantshafslaxinum síðustu 50 ár þá hefur stofninn minnkað um 75 prósent,“ segir Ratcliffe í samtali við fréttastofu.
„Ef maður lítur síðan á síðustu 100 eða 200 ár hefur hann sennilega minnkað um 90 til 95 prósent.“
Enginn vafi á að leiðin liggi til útrýmingar
Ratcliffe segir stöðuna mjög alvarlega. Það ættu allir að sjá það.
„Á því leikur enginn vafi að Norður-Atlantshafslaxinn er á leið til útrýmingar. Maður getur bara gert línuritið, það er ekki erfitt, þetta er mjög bein lína [niður á við],“ segir hann.
Stjórnvöld þurfi að stíga inn í. Lögfesta verði „veiða, sleppa“ aðferðina, jafnvel að stytta veiðitíma eða banna veiðar á stofninum í sjó í einhver ár.
Þá hefur hann einnig áhyggjur af vexti fiskeldis og segir alls óljóst hversu skaðleg áhrif það geti haft á stofninn.
En er Ratcliffe bjartsýnn á að hægt verði að snúa þessari þróun við og bjarga laxastofninum?
„Nei, ég er alls ekki viss um það. Því allar fréttir sem við sjáum núna eru slæmar fréttir.“