„Þetta er frábært kvöld. Maður er enn að jafna sig eftir þennan spennuleik. Þetta er fyrsti sigur Hauka í Evrópukeppni og er ég mjög stoltur af stelpunum. Við fengum stórar körfur þegar við þurftum á því að halda og var þetta geggjað í alla staði,“
Haukar byrjuðu leikinn af miklum krafti. Haukakonur komust 10-1 yfir áður en gestirnir tóku leikhlé.
„Ég var ánægður með hvernig stelpurnar mættu til leiks, það var frábært að byrja leikinn á þessum kafla.“
Þrátt fyrir góða byrjun Hauka komst Sportiva inn í leikinn og voru Haukakonur í miklum vandræðum með frákastabaráttuna.
„Ég vissi að þetta væri gott lið. Þær eru líkamlega sterkar og fengum við að finna fyrir því. Þær fóru illa með okkur í frákastabaráttunni.“
Dómgæslan var á tímabili afar sérstök og fannst Bjarna erfitt að finna línuna sem dómararnir fóru eftir í leiknum.
„Þetta eru erlendir dómarar. Við ræddum það fyrir leik að við yrðum að aðlaga okkur að þeirri línu sem þeir myndu dæma eftir. Ég fann hins vegar aldrei þessa línu í leiknum.“
Sportiva átti góðan kafla í blálokinn og minnkuðu þær leikinn í þrjú stig þegar lítið var eftir.
„Það var enginn skjálfti í mínu liði. Við töpuðum boltanum illa og þær refsuðu okkur fyrir það. En við nýttum okkar styrkleika sóknarlega og héldum þetta út,“ sagði Bjarni að lokum.