Ísavia sendi frá sér þrjár sviðsmyndir um þróun farþegafjölda um Keflavíkurflugvöll til næstu þriggja ára í morgun. Á næsta ári gætu farþegar samkvæmt varfærnustu myndinni orðið rúmar 4,1 milljón en rétt rúmar fimm milljónir samkvæmt bjartsýnustu myndinni. Þá gætu farþegar orðið fleiri árið 2024 en þeir voru árið 2019, ári fyrir kórónuveirufaraldur, eða tæpar 7,9 milljónir.
Guðmundur Daði Rúnarsson framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunar hjá Ísavia segir næsta ár verða mjög krítískt fyrir flug og ferðaþjónustu á Íslandi. Ef gangi vel að koma fluginu af stað á næsta ári muni sá vöxtur að öllum líkindum halda áfram árin þar á eftir.

„En ef það verða miklar takmarkanir eða harðar aðgerðir á landamærunum hér þannig að ferðamenn og aðrir velji frekar að fara til annarra áfangastaða en Ísland teljum við að það verði erfiðara árin 2023 og 2024 að fá flugfélög til að hefja flug til Íslands,“ segir Guðmundur Daði.
Þá verði erfiðara fyrir Icelandair og Play að sækja inn á nýja markaði þar sem framboð væri þegar mjög mikið. Nú þegar hafi aðgerðir á landamærunum dregið úr sætaframboði flugfélaga til Íslands.
„Flugfélögin hafa staðfest við okkur að aðgerðir á landamærunum hafa verið ein af þeim ástæðum sem hafa verið þess valdandi að þau hafi dregið úr framboði til Íslands. Jafnvel hætt við flug. Það stefndi í að hér yrðu nítján flugfélög að fljúga yfir veturinn en þau eru komin niður í fimmtán. Við óttumst að þeim muni fækka enn frekar,“ segir Guðmundur Daði.

Fyrirsjáanleiki varðandi aðgerðir á landamærunum skipti gríðarlega miklu máli. Flugfélögin skipuleggi sig langt fram í tímann. Kaupi flugvélar fjögur fimm ár fram í tíman og hefji sölu farmiða um átta mánuðum áður en þau hefji flug á nýja áfangastaði eða snúi þangað aftur.
„Það er bara gríðarlega mikilvægt að hér sé að lágmarki horft níu til tólf mánuði fram í tímann um hvernig eigi að haga aðgerðum á landamærunum. Hver sé í raun vilji stjórnvalda til ferðaþjónustu á komandi misserum,“ segir Guðmundur Daði.
Nú fagni menn réttilega komandi loðnuvertíð sem gæti fært þjóðarbúinu 40 til 60 milljarða í útflutningstekjur. Ferðaþjónustan hafi hins vegar skilað yfir 400 milljörðum árið 2019.
„Þannig að við teljum gríðarlega efnahagslega mikilvægt að komast aftur á sama stað og fyrir faraldurinn. Fyrir efnahagslífið allt og Ísland,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson.