Líkt og greint var frá í dag var töluverður viðbúnaður við Síðumúla eftir að tilkynning barst um vopnaðan mann á gangi í Síðumúla. Maðurinn virtist æstur og sást halda á vopni sem líktist vélbyssu.
Umsátursástand skapaðist um tíma en þegar maðurinn var handtekinn kom í ljós að um var að ræða eftirlíkingu af hríðskotabyssu af gerðinni MP5, sem er sams konar vopn og sérsveit ríkislögreglustjóra notar.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að brugðist hafi verið hratt við eftir að tilkynningin barst, enda séu mál sem þessi tekin mjög alvarlega. Eftir nokkra leit að manninum fannst hann í húsakynnum fyrirtækis sem hann starfar hjá við götuna. Þar innandyra hafi eftirlíkingin fundist.
Maðurinn var færður á lögreglustöð til skýrslutöku. Hann er ekki grunaður um refsiverða háttsemi.