Við þingsetningu framhaldsþings 75. Íþróttaþings ÍSÍ var borin upp tillaga um sex nýja Heiðursfélaga ÍSÍ. Þingið samþykkti tillöguna með dynjandi lófataki.
Nafnbótin Heiðursfélagi ÍSÍ er æðsta viðurkenning íþróttahreyfingarinnar. Þeir sem geta hlotið þá nafnbót eru þeir sem hafa hlotið Heiðurskross ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu ÍSÍ.
Nýir Heiðursfélagar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, samkvæmt kjöri 75. Íþróttaþings ÍSÍ, eru Árni Þór Árnason, Guðmundur Ágúst Ingvarsson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir, Jón Gestur Viggósson og Örn Andrésson.
Öll hafa þau átt sæti í framkvæmdastjórn ÍSÍ um árabil, hafa átt sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum sambandsins og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir ÍSÍ sem og aðrar einingar innan íþróttahreyfingarinnar að því er segir í fréttatilkynningu sambandsins.