Vinicíus hefur byrjað tímabilið einkar vel með Real Madríd þó liðið hafi hikstað undanfarið. Þessi 21 árs gamli vængmaður hefur hins vegar skorað fimm mörk og lagt upp önnur þrjú í átta leikjum til þessa.
Brasilíski vængmaðurinn hefur séð hvað Marcus Rashford, LeBron James og Lewis Hamilton hafa gert fyrir nærumhverfi sitt og vildi feta í fótspor þeirra. Hann ákvað því að reyna láta gott af sér leiða og byrjaði í borginni sem hann ólst upp í, Ríó de Janeiro.
Hefur leikmaðurinn stofnað samtök sem ætla að nýta tækni og íþróttir til að mennta ungt fólk í Brasilíu. Markmiðið er að auka jafnrétti í landinu. Frá þessu er greint í ítarlegri grein á The Guardian.
Vinícius Júnior launches education app to help poor students in Brazil | By @josue_seixas for @football_yellow https://t.co/b6eUEIHw7X
— Guardian sport (@guardian_sport) October 11, 2021
Vinicíus veit hversu erfitt það er fyrir fátæk börn að komast í háskólanám í heimalandinu. Því hafa samtökin sem hann stofnaði gefið út smáforritið Base, fræðsluforrit sem notar fótbolta sem leið til að virkja börn í námi.
„Fyrst og fremst vil ég hjálpa ungu fólki að mennta sig betur til að það geti náð meiri árangri. Að spila fótbolta er draumur í dós en væri ekki frábært ef við gætum hjálpað krökkum að komast úr fátækt með aukinni menntun? Það er markiðið mitt, til skamms og lengri tíma litið,“ sagði Brasilíumaðurinn um tilgang samtakanna.
Við þurfum fleiri lækna, lögfræðinga og verkfræðinga úr fátæktarhverfunum, við ætlum að gefa þeim tækifæri til þess að elta drauma sína,“ bætti hann svo við að endingu.