Fyrr í vikunni var konan, sem er á tíræðisaldri, flutt á bráðamóttöku Landspítala vegna ökklabrots. Við skoðun kom í ljós að orsökin var sú að henni hafði orðið svo bylt við við dyraat á heimili sínu að hún datt, með þessum alvarlegu afleiðingum.
Þetta var ekkert venjulegt dyraat heldur einhvers konar stökkbreytt útgáfa af þessum gamla hrekk. Fréttastofa hefur haft til umfjöllunar það sem verður hreinlega að kalla bylgju af ólátum sem riðið hefur yfir í Vesturbæ og á Seltjarnarnesi. Nú hefur bylgjan breitt úr sér og er orðin vandi í nærrum því öllum hverfum í Reykjavík.
Í einu myndbandinu hér að ofan má sjá þegar fjórir piltar ráðast til atlögu að útidyrahurð í fjölbýlishúsi með þeim afleiðingum að hurðin brotnar. Skömmu síðar birti sami notandi myndband af sér og vinum sínum á lögreglustöðinni með þeim skilaboðum að einhver hefði klagað.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru piltarnir þó ekki kallaðir til lögreglu, sem bendir til að heimsókn þeirra þangað kunni í raun að vera sviðsett.
Þær upplýsingar fengust þó að á síðustu dögum hafa tvö dyraatstilvik verið tilkynnt til lögreglu, án þess þó að vera tekin sérstaklega til rannsóknar. Ekki liggur fyrir hvort lögregla hafi mál eldri konu sem ökklabrotnaði til rannsóknar.
Lokið þessu TikTok!
Umræður hafa spunnist á samræðuvettvangi íbúa á Völlunum í Hafnarfirði, þar sem fólk segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við unglinga í hverfinu. Einn íbúinn skrifar að hann hafi haldið að hurðin myndi bresta inn á við þegar dyraat var gert á heimili hans, að dóttir hans hafi grátið vegna hamagangsins og hundurinn falið sig.
Í athugasemdum lýsa aðrir því að dóttir þeirra hafi sömuleiðis verið óhuggandi vegna svona dyraats og enn önnur lýsir því að hún hafi stokkið fram þegar hávaðinn heyrðist og séð sökudólgana rjúka á brott á rafmagnshlaupahjóli.
Rauður þráður í athugasemdum við færslur um þessa nýju dyraatstísku er tillaga sem ævinlega skýtur upp kollinum, að það ætti hreinlega bara að loka TikTok. Stuðningsmönnum þeirrar tillögu verður líklega ekki að ósk sinni, en hún myndi þó óneitanlega leysa margt í þessu máli: Þessi hegðun á sér upptök á TikTok eins og fjöldi dæmi sanna.