Þar segjum við líka frá því að smáhýsi fyrir heimilislausa hafa nú verið ónotuð í geymslu í rúmt ár þar sem erfiðlega hefur gengið að finna þeim samastað. Formaður velferðarráðs Reykjavíkur segir andstöðu við málið hafa komið sér á óvart og efast um að borgin kaupi fleiri smáhýsi.
Svo hittum við konu um þrítugt sem gengur nú í gegnum breytingaskeið og segir það hafa verið mikið áfall að fá greininguna. Hún stendur frammi fyrir strangri lyfjagjöf næstu áratugina.
Og það ríkir mikil gleði í Hlíðunum þar sem kötturinn Narfi er fundinn. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að fjögur ár eru síðan hann lét sig hverfa út um glugga í Hlíðunum. Eigandinn er í skýjunum, þótt kötturinn hafi óneitanlega elst um nokkur ár.
Svo kíkjum við út á land en ráðamenn forystufjársetursins í Þistilfirði vinna að því að íslenskir forystusauðir verði skilgreindir sem dýrategund í útrýmingarhættu og fari jafnvel á heimsminjaskrá sem menningarminjar. Þeir segja íslenska forystuféð einstakt í heiminum.