Málið má rekja til þess að farþeginn átti bókað flug með Norwegian frá Keflavík til Kanaríeyja í lok mars á síðasta ári. Fluginu var hins vegar aflýst vegna lokunar landamæra Spánar, sem kom til vegna kórónuveirufaraldursins.
Í úrskurði Samgöngustofu kemur fram að enginn ágreiningur hafi verið um að Norwegian ætti að endurgreiða farþeganum flugfargjaldið vegna aflýsingu flugferðarinnar. Fékk farþeginn þann flugmiða endurgreiddan.
Ráða má af lestri úrskurðarins að viðkomandi farþegi hafi hins vegar keypt sér annan farmiða með Norwegian til að komast aftur heim til Tenerife, áður en að landamæri Spánar lokuðu.
Sá flugmiði virðist hins vegar hafa kostað skildinginn, í það minnsta kvartaði farþeginn til Samgöngustofu þar sem honum þótti fargjaldið sem hann greiddi fyrir flugmiðann vera of dýrt.
Í úrskurði Samgöngustofu er vísað í reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan EES-svæðisins þar sem fram kemur að far- og farmgjöld skulu vera frjáls vegna flugþjónustu innan sama svæðis.
Stofnunin hafi því ekki ákvörðunarvald til að taka afstöðu til fjárhæðar fargjalds á grundvelli reglugerða um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um flug eða flugi aflýst. Var kvörtuninni því vísað frá.