Umfjöllun og viðtöl: FH - KA 28-21 | KA-krísan heldur áfram

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
FH-ingar unnu góðan sigur í kvöld.
FH-ingar unnu góðan sigur í kvöld. Vísir/Daníel Þór

Í kvöld fór fram leikur FH og KA í sjöttu umferð Olís-deildar karla, í Kaplakrika. Leiknum lauk með sigri heimamanna, 28-21. Fjórða tap KA í röð staðreynd.

FH kom inn í leikinn ekki hafandi spilað gegn íslensku liði síðan 13. október. Síðan þá hefur liðið þó leikið tvo leiki og það í 2. umferð EHF-bikarsins þar sem liðið lék heima og að heiman gegn Hvít-rússneska liðinu SKA Minsk. Tapaði liðið fyrri leiknum í Kaplakrika sannfærandi, en unnu hins vegar úti leikinn með eins marks mun síðasta laugardag.

KA kom inn í leikinn með þrjú töp á bakinu í síðustu þrem leikjum, gegn ÍBV, Stjörnunni og Val. Afhroð þeirra í síðasta leik gegn Val svíður hvað mest sennilega og því mátti búast við fyrir leik að norðanmenn myndu bíta í skjaldarrendur og sýna mátt sinn í kvöld. Annað kom á daginn.

Liðin skiptust á að hafa eins marks forystu á fyrstu mínútum leiksins. FH náði svo loks tveggja marka forystu á 14. mínútu, 6-4. Sóknarleikur KA byrjaði að stirðna all hressilega um það leyti. Mögulega spilaði þar inn í að Ólafur Gústafsson var kominn með tvær tveggja mínútna brottvísanir og spilaði lítið eftir það í fyrri hálfleik. Phil Döhler var einnig að verja virkilega vel og var með 57% markvörslu í fyrri hálfleik. FH náði að nýta sér þetta og hafði forystu í hálfleik, 12-9.

Seinni hálfleikurinn fór brösuglega af stað sóknarlega og voru aðeins þrjú mörk skoruð á fyrstu tíu mínútum hans, staðan 14-10 FH í vil. KA náði að minnka muninn niður í þrjú mörk um miðjan seinni hálfleikinn 17-14, en nær komst KA ekki. FH -ingar gáfu þá hressilega í og skoruðu nokkur mörk þegar engin stóð í marki KA, staðan orðin 24-18 og fimm mínútur eftir. Fjaraði leikurinn svo loks út. Lokatölur 28-21

Af hverju vann FH?

FH-ingar stóðu vörnina virkilega vel með Phil Döhler í banastuði fyrir aftan sig. Með fram góðri vörn náðu FH-ingar hægt og bítandi betri forystu í leiknum og loks sigri.

Hverjir stóðu upp úr?

Phil Döhler var maður leiksins með rúmlega 50% markvörslu. Ásamt honum var Ásbjörn Friðriksson frábær í sókn FH, átta mörk á þeim bænum.

Óðinn Þór Ríkharðsson var bestur KA manna, með átta mörk einnig.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur KA gekk bölvanlega á löngum köflum í leiknum, líkt og oft áður á þessu tímabili.

Hvað gerist næst?

Nú hefst stutt hlé á Olís-deild karla sem nær fram til 10. nóvembers. Þann dag fær KA Fram í heimsókn og hefst leikurinn kl. 18:00. Seinna sama kvöld eða kl. 19:45, hefst leikur FH og Vals í Origo höllinni að Hlíðarenda. Verður sá leikur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Sigursteinn Arndal: Góð vörn, fyrst og síðast

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var að vonum sáttur með sigur sinna manna í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH var að vonum sáttur í lok leiks.

„Mjög ánægður með tvö frábær stig á móti góðu KA liði. Get ekki verið annað en sáttur.“

Aðspurður hvað hafi tryggt sigurinn í seinni hálfleik hafði Sigursteinn Arndal þetta að segja: „Góð vörn, fyrst og síðast. Við héldum okkur við conceptið sóknarlega og við vissum það að ef við myndum halda þetta út þá mundum við brjóta þá á einhverjum tímapunkti og það gekk eftir.“

Nú tekur við hlé í Olís-deildinni. FH-ingar ætla að nýta það.

„Æfa vel. Það er ekki búinn að gefast mikill kostur á því að æfa í kringum Evrópu og þétt prógramm, þannig að við slökum vel á um helgina og æfum svo bara vel í næstu viku.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira