Fyrirfram var búist við spennandi leik en það varð ekki raunin þó svo að fyrri hálfleikurinn hafi verið nokkuð jafn. Haukakonur sigu framúr strax í upphafi og komust í 0-3. Þær héldu svo nokkurn vegin þessari þriggja marka forystu út fyrri hálfleikinn og tókst ekki alveg að hrista af sér baráttuglaðar Stjörnukonur.
Það var þó seint í fyrri hálfleiknum sem Haukum tókst að síga enn lengra framúr. Á stuttum kafla breyttu Haukar stöðunni úr 9-11 í 9-15 og þannig stóðu leikar þegar að liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.
Haukar komust svo fljótt í 12-20 og þar með var nokkuð ljóst hvernig þessi leikur myndi fara. Stjörnunni tókst ekki að brúa bilið og Haukar unnu að lokum nokkuð þægilegan sigur 23-32.
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði níu mörk fyrir Hauka og Ragnheiður Ragnarsdóttir skoraði sjö. Anna Petersen varði tólf skot í markinu. Hjá heimakonum var það Eva Björk Davíðsdóttir sem var atkvæðamest með tíu mörk.