Innherji

Horfast þurfi í augu við efnahagslegar afleiðingar kjarasamninga

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson segir tóninn frá Eflingu og hinum nýja hluta verkalýðshreyfingarinnar ekki til þess fallinn að leiða fram góðar niðurstöður við kjarasamningsborðið.
Þorsteinn Víglundsson segir tóninn frá Eflingu og hinum nýja hluta verkalýðshreyfingarinnar ekki til þess fallinn að leiða fram góðar niðurstöður við kjarasamningsborðið. Vísir/Vilhelm

Þorsteinn Víglundsson fyrrverandi félagsmálaráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins situr nú í forstjórastóli BM Vallár og horfir á pólítíkina og vinnumarkaðinn utan frá. Hann segir íslenska vinnumarkaðslíkanið ónýtt. Ekki hjálpi til að aukin harka hafi færst í samskipti milli aðila vinnumarkaðarins undanfarin ár, ekki síst með tilkomu nýrrar forystu í verkalýðsfélögunum.

Honum virðist sem sama virðingarleysi og hafi einkennt málflutning forsvarsmanna Eflingar gagnvart atvinnurekendum, hafi orðið þeim sjálfum að falli í umgengni við sitt starfsfólk. Mikilvægt sé að líta í spegilinn reglulega. Niðurstaða þingkosninganna hafi verið flokk sínum Viðreisn vonbrigði, en ef af framlengingu stjórnarsamstarfsins verði sé kominn tími til þess að stjórnarliðar horfist í augu við ágreiningsefnin sín á milli.

Þorsteinn segir margt í íslensku efnahagslífi um þessar mundir minna á hrunið, þó undirstöðurnar séu mun betri. Verið sé að endurtaka sömu mistök og þá. Hann hefur áhyggjur af launahækkunum í kortunum. „Þegar Lífskjarasamningurinn verður gerður upp sýnist mér í grófum dráttum að laun muni hafa hækkað um 30 prósent á þriggja ára tímabili á meðan landsframleiðsla á mann hefur staðið í stað. Það gefur augaleið þegar landsframleiðsla á mann stendur í stað er ekki svigrúm til 30 prósent launahækkunar, enda hefur krónan fallið á tíma samningsins. Ég held að þrýstingur verði frekar til áframhaldandi verðbólgu og frekari gengisveikingar til lengdar,” spáir Þorsteinn fyrir um.

„Íslenskt efnahagslíf er svo óstöðugt að það er gott stundum að horfa á löng tímabil til að reyna að átta sig á því hvað er að gerast. Ef við horfum á tímabilið frá Þjóðarsátt hafa laun hér hækkað að meðaltali um um það bil 6,5 prósent samanborið við um 3,5 prósent á hinum Norðurlöndunum. Einhverra hluta vegna vill svo til að verðbólgan okkar er að jafnaði svona sirka 3 prósent hærri, það er að segja svona 4,5 prósent að jafnaði samanborið við 1,5 prósent að jafnaði á hinum Norðurlöndunum. Þetta segi ég að sé óyggjandi merki um þessa beintengingu milli launahækkana og verðlagsþróunar. Ég hef enga ástæðu til annars en að ætla að það samband haldi áfram. Það er því miður mjög margt í íslensku samfélagi nú sem minnir á þróunina í aðdraganda hruns,” segir Þorsteinn.

„Við erum til að mynda að endurtaka sömu mistökin á vinnumarkaði.”

Ónýtt vinnumarkaðslíkan

Grunnvandinn við vinnumarkaðinn sé uppbygging hans.

„Vinnumarkaðslíkanið okkar er ónýtt. Að minnsta kosti að því marki sem því er ætlað að skila efnahagslegum stöðguleika. Sjálfur hef ég viljað færa okkur nær norræna líkaninu. Norðurlöndin hafa afrekað að skipa sér í topp tíu á nær alla mælikvarða sem við getum hugsað okkur, jafnrétti, jöfnuð, landsframleiðslu á mann, meðaltekjur á mann, hversu lítil fátækt mælist í alþjóðlegum samanburði, frelsi, lýðræði og svo mætti áfram telja. Þetta er býsna magnað fyrir svæði sem telur innan við 30 milljón manns í það heila.

Það er vert að huga að því hvað það er sem sameinar okkur í samfélagsgerðinni. Það er lýðræði, almenn lýðræðisþátttaka og sterk verkalýðshreyfing sem er mikilvæg norræna líkaninu.

Verkalýðshreyfingin hefur knúið á um lífskjarabætur og breytingar og tryggt betri jöfnuð en annars staðar, en markaðshagkerfinu hefur samt verið leyft að draga vagninn. Kapítalisminn verið beislaður með þessum hætti. Er stillt upp fyrir vagninum til að draga hann áfram en hefur skapað þessa velsæld. Þetta hefur skilað árangri, líka hér á landi en munurinn er sá að við erum með miklu meiri launahækkanir heldur en nágrannalöndin, miklu meiri átök á vinnumarkaði og miklu meiri verðbólgu sem er algjörlega afleidd af launahækkunum,” segir Þorsteinn.

Ítrekað hafi verið sýnt fram á það samhengi sem þar sé á milli.

Þorsteinn Víglundsson segir að ljóst sé að launahækkanir í kortunum muni koma mjög niður á fyrirtækjunum á erfiðum tíma. Vísir/Vilhelm

Efnahagslegar afleiðingar kjarasamninga ekki viðurkenndar

„Svo ekki sé minnst á þann gengisóstöðugleika sem við höfum búið hérna við. Gengið fellur á sjö til tíu ára fresti. Það er bein afleiðing af launahækkunum langt umfram það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Vinnumarkaðshagfræðin segir, ef þú hækkar laun umfram það sem gerist í samkeppnisríkjum þínum til lengdar hlýtur það að framkalla verðbólgu sem á endanum leiðir annað hvort til atvinnuleysis eða gengisfalls. Þetta þekkjum við vel en höfum ekki náð að takast á við.”

Hann segir nokkra þætti aðgreina okkur frá nágrannalöndunum, en hann horfi fyrst og fremst á tvennt. „Í Noregi, Svíþjóð og í Danmörku hafa aðilar vinnumarkaðarins samið um leikreglurnar í eins konar rammasamkomulagi. Að ákveðnar greinar fari fyrst, hvernig vinnudeilum sé háttað, hvort séu merki eða undanfarar, grunnleikreglurnar.

Á hinum Norðurlöndunum er þetta umhverfi afsprengi samninga en hér hefur löggjafinn fyrst og fremst búið til umhverfið. Það er mikilvægt að aðilar hér setjist yfir slíka samninga. 

Hitt er svo þá að samningsforræðið liggur yfirleitt á hendi stærri sambanda í nágrannalöndunum. Hér liggur forræðið hjá smæstu einingunni og hvert verkalýðsfélag fyrir sig þarf þá að taka ákvörðun um að framselja það. Þetta hefur búið til sundrungu í gegnum tíðina og gerir alla samstillingu mjög erfiða,” útskýrir hann og bætir við.

„Svo vantar verulega upp á almenna viðurkenningu á því að kjarasamningar hafi efnahagslegar afleiðingar og þar af leiðandi þurfi aðilar vinnumarkaðar að axla þá ábyrgð.”

Gagnkvæmt traust býr til góða samninga

Þú hefur rætt um grunnvandann sem er uppbygging vinnumarkaðarins. En hversu miklu máli skipta persónur og leikendur við kjarasamningsborðið?

„Þær skipta höfuðmáli. Þar er ekki bara spurningin um hvernig fólk talar í fjölmiðlum og hversu hart er slegist, heldur ekki síður hvernig fólki gengur að leiða fram niðurstöðu við kjarasamningsborðið sjálft. Það er á endanum þar sem málin leysast. Mín skoðun er sú að tónninn sem hefur komið frá Eflingu og hinum nýja hluta verkalýðshreyfingarinnar sé ekki til þess fallinn að leiða fram góðar niðurstöður við kjarasamningsborðið.

Tónninn er meira í ætt við það sem við sjáum alltof mikið af í dag, fólk grefur sig niður í skotgrafir. Oft þarf talsverða útsjónarsemi við kjarasamningaborðið til þess að leiða fram hagsmuni beggja aðila, ná fram kjarabótum en um leið skipulagsbreytingum í kringum vinnumarkaðinn sem kannski eykur framleiðni og hjálpar þá fyrirtækjunum að takast á við launakostnaðinn. Oft hafa náðst mjög góðir kjarasamningar í slíku umhverfi, þar sem skapast hefur traust milli aðila. Það er býsna erfitt þegar traustinu er ekki til þess að dreifa að takast á við flókin viðfangsefni.”

Gott að líta í spegilinn

Róstur hafa staðið um verkalýðsfélagið Eflingu undanfarnar vikur og mánuði, sem ljóst er að Þorsteinn vísar til þegar hann ræðir um hina nýju forystu verkalýðsfélaganna. Formaður félagsins, Sólveig Anna Jónsdóttir er hætt og Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri líka eftir að starfsmenn ályktuðu um ógnarstjórn innan félagsins.

„Það þarf eitthvað að ganga á til þess að starfsfólk sé farið að álykta gegn stjórnendum sem eru jafnframt í þeirri stöðu að geta sagt fólki upp. Þarna virðist hafa verið mikil ólga innandyra frá því að Sólveig Anna tók við. Bæði virtust þar verða ákveðnar hreinsanir af skrifstofunni fljótlega á eftir og greinilega miðað við ályktanir töluverð starfsmannavelta og óöryggi í starfsumhverfinu allar götur síðan. Maður hefði haldið að ef starfsfólkið er að álykta og leggja fram ákall um að skapa betri frið innan vinnustaðarins sé réttara viðbragð við því að kalla til mannauðssérfræðinga, vinnustaðasálfræðinga og þess háttar. Velta því fyrir sér hvað sé hægt að bæta í stað þess að stilla starfsfólki upp við vegg og varpa svo ábyrgðinni yfir á þetta sama starfsfólk,” segir Þorsteinn en bætir við að starfsfólk reki ekki kjörinn formann.

„Það er hennar val að hætta. Hefði ég verið í sömu sporum hefði ég frekar horft í spegilinn og spurt mig hvað ég væri að gera rangt. 

Sér í lagi þegar horft er til þess að um er að ræða verkalýðsfélag sem hefur verið mjög óspart í gagnrýni sinni á atvinnurekendur. Sagt nánast að atvinnurekendur séu heilt yfir glæpahyski. Maður myndi ætla að sá sami og hefur svona orð uppi teldi mikilvægt að hafa trúverðugleika inn á við, gagnvart eigin starfsfólki til að miðla málum. Mér finnst þarna endurspeglast ákveðið virðingarleysi gagnvart því starfsfólki sem vinnur fyrir Eflingu. 

Það er hollt fyrir alla stjórnendur að hafa í huga, að við uppskerum eins og við sáum gagnvart samstarfsfólki okkar.”

Hvað með þátt Samtaka atvinnulífsins í þessum hnútaköstum á vinnumarkaði?

„Mér finnst almennt, þar til á allra síðustu árum, traust hafa einkennt samskipti aðila. Það hefur örlað mjög á vantrausti á síðustu árum. Ég get ekki betur séð en að sú breyting sem orðið hefur innan verkalýðsforystunnar sé meginorsökin þar. Auðvitað er það ábyrgð allra aðila að reyna að byggja upp traust og trúverðugleika á milli, en ég get ekki bent á eitthvað haldbært í dag sem ég myndi segja að væri til þess fallið að grafa undan slíku trausti. Vandinn er að það skortir vilja hjá hluta verkalýðshreyfingarinnar að eiga gott samtal um uppbyggingu vinnumarkaðarins.”

Þorsteinn var þingmaður Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður 2016–2020. Hann gegndi embætti félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2017, sem m.a. fer með málefni vinnumarkaðarins.Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Ósjálfbær ríkisfjármál

Þorsteinn nefndi fyrr í viðtalinu að ýmislegt i íslensku samfélagi nú minnti hann á aðdraganda hrunsins. Þar á hann ekki einungis við vinnumarkaðinn. „Við erum líka að endurtaka sömu mistökin í ríkisfjármálum. Við erum með ósjálfbær ríkisfjármál til lengdar. Við bjuggum til dæmis til heilan lagabálk um hvernig við ætluðum að stýra ríkisfjármálunum en erum samt með sams konar yfirskot í góðærinu í vexti útgjalda ríkisins, eins og við gerðum í aðdraganda hrunsins.”

En það er margt betra núna en fyrir hrun, við erum með sterkan gjaldeyrisvaraforða og bankakerfið stendur sterkt. Það var búið betur í haginn?

„Já, grundvallarmunurinn er ferðaþjónustan og gjaldeyrisbúskapurinn sem hlaust af henni. En á sama tíma má velta fyrir sér, hvernig stendur ferðaþjónustan núna? Hún er bókstaflega á hnjánum. Það voru komnir talsverðir brestir í greinina áður en heimsfaraldurinn stöðvaði för fólks milli landa. Fyrsta stóra veikleikamerkið var fall WOW 2019. Þá strax mátti vera ljóst að samkeppnishæfni greinarinnar væri kannski ekki eins góð og hún hafði verið. Við erum ekki að horfa fram á gullaldartímabil í ferðaþjónustu eins og var á árunum 2011 til 2015 þar sem gengið var veikt og greinin fékk talsvert góða afkomu. Hún er í erfiðu rekstrarumhverfi áfram, jafnvel eftir að ferðamennirnir snúa aftur,” segir Þorsteinn.

„En hitt er alveg klárt, það er margt sem er miklu betra en var fyrir hrun. Það er engin hætta að við séum að fara inn í gjaldeyriskreppu í næstu niðursveiflu ef vel er á málum haldið áfram, en við getum sagt að það sé áhyggjuefni hversu hratt skuldsetning ríkissjóðs er að aukast. Staðan er enn í lagi í það heila en það þarf að stöðva skuldasöfnunina,” segir hann.

Niðurstöður litlausra kosninga vonbrigði

Nýafstaðnar þingkosningar voru Þorsteini og félögum hans í Viðreisn mikil vonbrigði. „Það er erfitt að líta á niðurstöður kosninganna sem annað en vonbrigði fyrir okkur. Ríkisstjórnin getur mjög vel túlkað niðurstöðurnar sem stuðningsyfirlýsingu. Ég sá könnun um daginn þar sem landsmenn áttu að velja hvaða flokk þeir vildu helst sjá í ríkisstjórninni og flestir vildu Framsókn. Ég hef spurt að gamni mínu, hvað var eiginlega í þessum bóluefnum,” segir Þorsteinn og hlær.

„Auðvitað er Framsókn sigurvegari annars frekar litlausrar kosningabaráttu. Baráttan snerist um stöðugleika. Það var dálítið lágt risið á málefnalegri umræðu almennt. Hins vegar er það alveg ljóst að ríkisstjórn sem ætlar að sitja annað kjörtímabil þarf þá að fara að taka á þeim ágreiningsefnum sem eru á milli. Eftir kosningarnar 2017 var þetta neyðarlending þessa flokka til að tryggja pólítískan stöðugleika og ágreiningsmál sett til hliðar. Það getur þú ekki gert önnur fjögur ár. 

Það má að mörgu leyti segja að þessi heimsfaraldur hafi gefið þeim skjól síðasta eina og hálfa árið í samstarfinu. Það var ekki mikið verið að tala um stór pólítísk álitaefni, önnur en Covid og Heima með Helga, en það eru stórar áskoranir framundan” 

Þorsteinn nefnir ójafnvægi á vinnumarkaði og í ríkisfjármálunum. Hann segir hagvöxtinn sem við sjáum nú fyrst og fremst fenginn með því að endurheimta landsframleiðsluna sem við höfðum fyrir Covid. Límið í samstarfinu verði ekki endalaust svigrúm til eyðslu eins og var síðast. Hann nefnir loftslagsmálin.

„Þar þurfum við að taka okkur taki eins og aðrar þjóðir. Hvernig getum við dregið úr losun? Það þýðir ekki að hampa okkur á grænni orku því við höfum jarðvarma og vatnsaflið. Við erum að nota heilmikið af jarðefnaeldsneyti og á endanum er ein lausnin á vandanum að jarðefnaeldsneyti þarf að vera á útleið. Við þurfum að horfa í orkuskipti á öllum sviðum, hvort sem er í langflutningum á landi eða sjávarútvegi eða sjóflutningum eða flugi. Við erum öfundsverð af því að engin þjóð í heiminum hefur meiri tækifæri af orkuskiptum eins og Ísland. Við höfum tækifæri til að vera 100 prósent sjálfbær.”

Þorsteinn segir mikil tækifæri liggja í orkuskiptum fyrir Íslendinga. Hins vegar sé morgunljóst að til þess þurfi að virkja meira hér á landi.Vísir/Vilhelm

Hins vegar sé alveg ljóst að ef eigi að verða af orkuskiptum, þurfi að virkja hér meira. Það verði erfitt fyrir þessa ríkisstjórn. „Það þarf að leggja upp með metnaðarfullt plan næstu fjögur ár. Til dæmis eru langflutningabílar ekki endurnýjaðir á tveggja ára fresti. Bílarnir sem eru keyptir í dag verða á götunum að stórum hluta næstu tíu árin. Við þurfum að hafa hraðar hendur til að fara sjá einhvern árangur af þessum orkuskiptum. Það vantar að taka utan um það hvaða stuðningskerfi á að setja upp, því við vitum að þessi tæki líkt og fyrstu rafmagnsbílarnir verða mun dýrari en tækin í almennri notkun í dag.”

Kreddufull umræða standi framþróun fyrir þrifum

Þorsteinn nefnir heilbrigðismálin sem hafa reynst ríkisstjórninni erfið í samstarfinu. 

„Það er alveg með ólíkindum hvað fólk er fast í einhverjum kreddum þegar þessi málaflokkur er annars vegar. Af hverju má ekki beita markaðshagkerfinu fyrir sig á ákveðnum þáttum? Ég nefni sem dæmi þessa endalausu umræðu um liðskiptaaðgerðir og hvort sem það heitir Klíník eða annars staðar þar sem þetta er gert. Það gefur augaleið að slíkar aðgerðir eiga ekki heima á Landspítalanum ef aðrir kostir eru í boði, einfaldlega því þetta er háskólasjúkrahús, neyðarsjúkrahúsið okkar. Skurðstofur þurfa alltaf að vera tiltækar fyrir neyðartilvikin. Því er endalaust verið að rýma dagskrá dagsins af því að það er eitthvað að koma uppá. Það gerir allt skipulag á svona rútíneruðum aðgerðum mjög erfitt og mjög dýrt,” segir hann.

„Spítalinn er dýrasti punkturinn í heilbrigðiskerfinu til að framkvæma slíkar aðgerðir. Þarna eiga sjúkratryggingar að hafa yfirsýn og þekkingu og beita einhverskonar útboði með stífum gæðaviðmiðum. Auðvitað gerum við ekki minni kröfur til aðgerða sem eru gerðar utan spítalans en innan en það á að vera sjálfsagt að nýta lækna sem eru fyrir hendi, aðstöðu sem er fyrir hendi til að þess að vinna á biðlistum í stað þess að láta þetta hlaðast upp og framkvæma aðgerðir þar sem þær eru dýrastar.”

Eins séum við að nýta bráðamóttökuna okkar sem heilsugæslu að hluta og spítalann sem dvalarstað fyrir eldri borgara sem fá ekki inn á dvalarheimilum. 

„Af hverju í ósköpunum byggjum við ekki þessi hjúkrunarheimili?”

En ertu með þessum lausnum ekki að leggja til að VG fari á hnén?

„Nei, ég held að menn þurfi bara að fara að horfa kreddulaust á hvaða lausnir eru þarna. Við erum að nýta einkaframtakið á mörgum sviðum, meira og minna öll öldrunarþjónusta er einkaframtak, nota bene ekki í hagnaðarskyni. Við erum alltaf í kreddum í umræðunni um einkavætt heilbrigðiskerfi, sem bara er ekki til á Íslandi sem heitið getur. Við erum að uppistöðu til með opinbert heilbrigðiskerfi sem er kostað af hinu opinbera en þjónustan er veitt af ýmsum aðilum.”

Talar þarna maður sem er alveg hættur afskiptum af stjórnmálum?

Þorsteinn hlær. „Auðvitað hef ég mjög gaman af pólítík og brenn fyrir henni, en ég verð líka að viðurkenna að mér finnst þingið afskaplega óskilvirkur og leiðinlegur vinnustaður í stjórnarandstöðu. Mér finnst tími þingsins illa nýttur. Lífið er gríðarlega gott utan pólítíkurinnar og ég kann vel við mig í starfi mínu. Maður veit aldrei hvað gerist í framtíðinni, en það er allavega engin eftirsjá í mér.”

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×