Jón Rúnar, sem lengi var formaður knattspyrnudeildar FH og þar á meðal á mesta gullaldarskeiði liðsins, var gestur Henrys Birgis Gunnarssonar í fyrsta þætti Foringjanna, á Stöð 2 Sport. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.
Í þættinum, sem sýndur var á sunnudagskvöld, viðurkenndi Jón Rúnar að tapið gegn Stjörnunni í Kaplakrika 2014 sæti enn í sér:
„Auðvitað gerir það það. Allir sanngjarnir menn vita hvernig þetta hefði endað hefði allt verið spilað eftir reglunum sem á að fara eftir. Hefðum við ekki verið með blindan beitusala á línunni, þá hefði þetta farið allt öðruvísi,“ segir Jón Rúnar.
Þar vísaði hann til fyrra marks Stjörnunnar í leiknum en það hefði ekki átt að standa vegna þess að Ólafur Karl Finsen var rangstæður. Aðstoðardómarinn Sigurður Óli Þorleifsson var á hliðarlínunni en gerði mistök sem að mati Jóns Rúnars kostuðu FH-inga Íslandsmeistaratitil.
Heimir Guðjónsson, þáverandi þjálfari FH, hefur lýst leiknum sem „dómaraskandal frá upphafi til enda“ og Jón Rúnar lítur svo á að Stjarnan eigi í raun enn eftir að vinna Íslandsmeistaratitil:
„Ég held að Garðbæingar, margir hverjir ágætir vinir mínir, viti það sjálfir að þeir eiga eftir að vinna Íslandsmeistaratitil. Ég segi þetta ekki til þess að gefa mér einhverja hugarró. Það er bara þannig í þessu „geimi“, að það vilja allir gera hlutina eftir reglunum. Það er enginn sem vill hafa þetta hinsegin,“ segir Jón Rúnar og bætir við:
„Þetta situr í manni, þegar þetta er borið upp, en ég sef alveg fyrir þessu. Þetta var ótrúleg stund.“
Foringjarnir eru á dagskrá Stöðvar 2 Sports á sunnudagskvöldum en þar ræðir Henry Birgir Gunnarsson við nokkra af helstu íþróttaforingjum landsins síðustu áratugi. Þættirnir eru einnig aðgengilegir á Stöð 2+.