Fyrr í kvöld mættust annars vegar Wolfsburg og Juventus í A-riðli þar sem þær ítölsku höfðu betur 0-2, og hins vegar tók Breiðablik á móti Kharkiv þar sem Blikar þurftu að sætta sig við 0-2 tap.
Samantha Kerr skoraði eina mark leiksins er Chelsea vann 1-0 heimasigur gegn botnliði Servette í A-riðli.
Chelsea er því enn með þriggja stiga forskot á toppi riðilsins, nú með tíu stig. Juventus situr í öðru sæti með sjö stig og Wolfsburg í því þriðja með fimm. Servette situr sem fyrr á botninum án stiga.
Marie-Antoinette Katoto kom gestunum frá París yfir gegn Real Madrid á 33. mínútu er liðin mættust í B-riðli í kvöld, áður en Sakina Karchaoui tryggði 0-2 sigur Parísarliðsins tuttugu mínútum fyrir leikslok.
PSG er nú með sex stiga forskot á toppi riðilsins, en liðið hefur fengið 12 stig af 12 mögulegum og hefur nú þegar tryggt sér sæti í átta liða úrslitum. Madrídingar koma þar á eftir með sex stig, Kharkiv er í þriðja sæti með fjögur og Blikar reka lestina með aðeins eitt stig.