Minningardagurinn fór ekki fram hjá neinum sem gekk fram hjá Hörpunni í kvöld en hún var tendruð í litum alþjóðlega trans fánans; bleikum, bláum og hvítum.
Fréttastofa ræddi við Alexöndru Briem, forseta borgarstjórnar, sem er fyrsta trans konan til að gegna því embætti. Hún hélt erindi á málþingi Samtakanna 78 sem haldinn var í dag.
Erfiður dagur
„Þessi dagur er alltaf þyngri en maður á von á. Þetta er dagurinn sem við minnumst þeirra sem hafa fallið frá á árinu og samkvæmt mælingum þá er þetta eitt banvænasta árið fyrir trans fólk frá því að mælingar hófust,“ segir Alexandra.
„Við erum náttúrulega bæði með sýnileikadag og núna minningardag og að vissu leyti þá er hættan alltaf í því að því sýnilegri sem við erum því auðveldara skotmark verðum við líka.“
Er eins og baráttan gangi hægar en vonast var til?
„Að einhverju leyti já. Við erum náttúrulega að sjá visst bakslag í heiminum í dag. Við erum að sjá mikið af auknum réttindum víðs vegar en við erum líka að sjá afturhaldi og íhaldi vaxa ásmegin og svona bakslag víðs vegar í heiminum og við þurfum að berjast gegn því. Því að fyrir okkur þýðir þetta dauða,“ segir Alexandra.
Fara verði í aðgerðir á Íslandi til að styðja við réttindabaráttu trans fólks.
„Við verðum náttúrulega að efla fræðslustarf. Við í borginni erum með félagsmiðstöð fyrir hinsegin krakka og við viljum fá félagsmálaráðuneytið eða barnamálaráðherra með okkur í það. Við viljum líka breyta reglugerð um salerni en Reykjavíkurborg var beitt dagsektum þegar við ókyngreindum salernið og það er að letja aðra aðila frá því að taka sama skref.