Barnaverndarnefnd Akureyrar var meðal þeirra nefnda sem sendi börn á barnaheimilið á Hjalteyri á sínum tíma. Eftir að félagsmálastjóri bæjarins gerði miklar athugasemdir við starfshætti á heimilinu árið 1977 hætti nefndin hins vegar að senda börn þangað.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar segir að heimilið á Hjalteyri hafi ekki verið í forsjá Akureyrar. Hins vegar hafi barnaverndarnefnd bæjarins sent börn þangað.
Aðspurð um hvort hún telji að yfirvöld eigi að rannsaka heimilið svarar hún:
„Þetta mál er hörmulegt og hörmulegar lýsingar á málefnum barnanna sem þarna dvöldu. Félagsmálastjórinn hér gerði alvarlegar athugasemdir við starfsemina á sínum tíma sem varð til þess að heimilið hætti starfsemi. Ég tel hins vegar rétt að þetta mál verði rannsakað eftir það sem nú er komið fram,“ segir Ásthildur.
Erfitt sé að segja á þessu stigi hver geti séð um slíka rannsókn.
Bæjarstjóri Garðabæjar hefur einnig lýst yfir að hann ætli að láta rannsaka starfsemi hjónanna í Garðabæ en þau voru dagforeldrar og ráku leikskóla þar á árunum 1995-2015.