Bose bikarinn er fyrsta æfingamót undirbúningstímabilsins og í dag fóru fram tveir leikir milli liða sem hafa verið í efri hluta efstu deildar undanfarin ár.
Í Víkinni tóku Íslands- og bikarmeistarar Víkings á móti Val og höfðu Víkingar betur með tveimur mörkum gegn einu.
Það voru Grafarvogspiltarnir Birnir Snær og Kristall Máni Ingason sem sáu um markaskorun Víkings en Akureyringinn Birkir Heimisson klóraði í bakkann fyrir Hlíðarendaliðið.
Í Garðabæ var KR í heimsókn hjá Stjörnunni en Óskar Örn Hauksson sem hafði félagaskipti milli þessara félaga á dögunum var ekki með í leiknum sem lauk með 2-1 sigri Stjörnunnar.
Þorsteinn Már Ragnarsson og Hilmar Árni Halldórsson gerðu mörk Stjörnunnar en Stefan Alexander Ljubicic skoraði fyrir KR.