Þá flutti forsætisráðherra stefnuræðu sína í vikunni.
Því skal engan undra að stjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur skipi efstu þrjú sæti vikunnar - og Alþingi komi þar á eftir. Mikið var skrafað og rætt um skipan ríkisstjórnarinnar en formaður Sjálfstæðisflokksins þótti koma nokkuð á óvart í ráðherrakapalnum.
Hástökkvari vikunnar er án efa dómsmálaráðuneytið sem skipar tíunda sæti listans, en óvænt skipan Jóns Gunnarssonar, nýs ráðherra málaflokksins, á aðstoðarmanni vakti nokkra athygli. Það var Innherji sem greindi fyrst frá ráðningu Brynjars Níelssonar í ráðuneytið og sitt sýndist hverjum um mannvalið.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.