Sport

Lancashire-rósin stefnir á fyrsta sigurinn sinn á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lisa Ashton tekur í spaðann á Adam Hunt eftir viðureign þeirra í 1. umferð heimsmeistaramótsins í pílukasti í fyrra.
Lisa Ashton tekur í spaðann á Adam Hunt eftir viðureign þeirra í 1. umferð heimsmeistaramótsins í pílukasti í fyrra. getty/KIERAN CLEEVES

Önnur tveggja kvenna sem keppa á heimsmeistaramótinu í pílukasti, Lisa Ashton, mætir til leiks í kvöld.

Þetta er í þriðja sinn sem Ashton keppir á HM en hún bíður enn eftir sínum fyrsta sigri á stóra sviðinu. Hún tapaði fyrir Jan Dekker, 3-1, á HM 2019 og 3-2 fyrir Adam Hunt á HM í fyrra.

Hin 51 árs Ashton mætir Ron Meulenkamp frá Hollandi í næstsíðustu viðureign dagsins og er klár í slaginn.

„Þetta verður meira spennandi í ár því áhorfendur eru komnir aftur. Ég hlakka mikið til,“ sagði Ashton í samtali við Sky Sports.

„Ég undirbý mig fyrir leikinn gegn Ron eins og hvern annan leik. Ég hef spilað við hann áður og veit hvernig hann spilar. Hann er frekar hægur. En það skiptir ekki máli, ég spila bara minn leik og geri það sem ég geri alltaf.“

Ashton, eða Lancashire-rósin eins og hún er kölluð, stefnir á að vinna sinn fyrsta leik á HM í kvöld. Og ef það gerist mætir hún Michael Smith í næstu umferð.

„Ég kem inn í leikinn með það að markmiði að koma á óvart. En ég er líka reyndari því ég veit hvernig þetta er og hvernig spilamennska mín er. Mér líður nokkuð vel og vonast til að komast yfir hjallann að þessu sinni,“ sagði Ashton.

Hin konan á HM, Fallon Sherrock, mætir til leiks á sunnudagskvöldið þegar hún mætir goðsögninni Steve Beaton sem er á sínu 31. heimsmeistaramóti. Sherrock sló eftirminnilega í gegn á HM 2020 þegar hún vann tvær viðureignir.

Viðureign Ashtons og Meulenkamps hefst klukkan 21:00 í kvöld. Sýnt verður beint frá öllum átta viðureignum dagsins á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×