Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, sendi í síðustu viku tölvupóst á starfsmenn ráðuneytisins þar sem hann sagði frá því að auglýsa ætti stöðu hans. Í póstinum tíundaði hann það að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði tilkynnt honum það í síðasta mánuði og að það væri vegna þess að henni þætti að auglýsa ætti stjórnarstöður sem þessar í lok skipunartíma.
Haukur sagðist svo hafa spurt Jón eftir að hann tók við embætti hvað hann vildi gera og sagði að Jón hefði tjáð honum að auglýsa ætti stöðuna í vor. Þá sagðist Haukur ætla að sækjast eftir stöðunni aftur.
Haukur var skipaður ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins í maí 2017 af Sigríði Andersen, þáverandi ráðherra.
Sjá einnig: Haukur skipaður ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis
Sagði frekari breytingar í brúnni ekki ráðlagðar
Jón sendi svo nýverið póst á starfsmenn ráðuneytisins þar sem hann sagðist hafa skipt um skoðun. Á þeim rúma hálfa mánuði sem liðinn væri frá því að hann tók við embættinu hefði hann kynnst ráðuneytinu og sæi heildarmyndina betur.
Jón sagði að ört hafi verið skipt um menn í brúnni á undanförnum áratug og að hann sæi ekki að frekari umbyltingar og rask myndi bæta það starf sem unnið er í ráðuneytinu.
Því hefði hann hætt við að auglýsa stöðuna í vor.
Hreinn Loftsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Áslaugar Örnu, sem tók að sér að verða áfram aðstoðarmaður Jóns fyrir rúmum tveimur vikum tilkynnti í kvöld að hann væri hættur, án þess þó að taka fram af hverju.
Sjá einnig: Hreinn hættur eftir aðeins tvær vikur með Jóni
Í færslu á Facebook sem hann birti í kvöld sagði Hreinn málefni ráðuneytisins vera fjölmörg og spennandi og því hafi hann tekið boði Jóns um að aðstoða hann í embætti en Brynjar Níelsson er einnig aðstoðarmaður Jóns.
„Fljótlega komst ég þó að raun um að ég hafði verið of fljótur á mér og hef nú afráðið að láta af störfum,“ skrifaði Hreinn.
Hvorki náðist í Hrein né Jón innanríkisráðherra við vinnslu fréttarinnar.