Sport

Fyrrverandi handboltamarkvörður keppir á HM í pílukasti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Florian Hempel þreytir frumraun sína á HM í pílukasti á sunnudaginn.
Florian Hempel þreytir frumraun sína á HM í pílukasti á sunnudaginn.

Þjóðverjinn Florian Hempel er með annan bakgrunn en aðrir keppendur á heimsmeistaramótinu í pílukasti. Hann er nefnilega fyrrverandi handboltamarkvörður.

Hempel er á sínu fyrsta heimsmeistaramóti en á sunnudaginn mætir hann landa sínum, Martin Schindler, í 1. umferð.

Hinn 31 árs Hempel byrjaði ekki að stunda pílukast fyrr en 2017 þegar hann hætti í handbolta. Hann átti þokkalegasta handboltaferil og spilaði meðal annars í þýsku B-deildinni en hann virðist vera talsvert betri pílukastari en handboltamaður.

Hempel vann sér þátttökurétt á PDC mótaröðinni í ár og kom svo gríðarlega á óvart á EM þegar hann sigraði Peter Wright í 1. umferð. Wright varð heimsmeistari 2020 og átti titil að verja á EM. Hempel tapaði svo naumlega fyrir Mensur Suljovic í 2. umferð.

Hempel er í 87. sæti á heimslistanum á meðan andstæðingur hans á sunnudaginn, Schindler, er í 69. sæti. Sigurvegarinn í viðureign þeirra mætir manninum í 5. sæti heimslistans, Dimitri Van den Bergh, í næstu umferð.

Viðureign þeirra Hempels og Schindlers hefst klukkan 20:00 á sunnudaginn og er önnur viðureign kvöldsins. Sýnt er beint frá HM í pílukasti á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×