Guðrún segist alls ekki hafa búist við þessu og var að vonum glöð þegar blaðamaður náði tali af henni fyrr í dag. Hún viðurkennir þó að hafa verið sterkur námsmaður í gegnum tíðina og þótt gaman að læra.
„Ég hélt ég myndi fá viðurkenningu í spænsku og ég var bara að vonast eftir því. Svo sagði aðstoðarskólastjórinn: „Hún verður beðin um að hinkra af því að hún er dúx skólans,“ og ég bara bjóst ekki neitt við þessu,“ segir Guðrún Júlíana um útskriftarathöfnina.
Hún hrósar skólanum í hástert og mælir mikið með náminu: „Kennararnir allir eru svo ógeðslega næs og ég er búin að mæla með þessum skóla við alla,“ segir Guðrún Júlíana og bætir við að vinkona hennar sé einmitt á leið í skólann eftir góð meðmæli.
Þegar blaðamaður spyr hver galdurinn sé á bakvið svona góðan árangur er Guðrún ekki lengi að svara: „Skipulagið númer eitt, tvö og þrjú,“ en bætir við að það hjálpi að sjálfsögðu að hafa gaman að náminu, sem hún svo sannarlega hafði. Næst á dagskrá sé líklega eitthvað í tengslum við lýðheilsufræði, en Guðrún Júlíana segir að það hafi verið eitt skemmtilegasta fagið í skólanum.