Innlent

Sam­staða náðst um 53 þúsund króna auka­­­greiðslu til ör­yrkja

Eiður Þór Árnason skrifar
Samstaða náðist um málið í fjárlaganefnd Alþingis í dag.
Samstaða náðist um málið í fjárlaganefnd Alþingis í dag. vísir/vilhelm

Samstaða náðist í kvöld í fjárlaganefnd Alþingis um tillögu þess efnis að öryrkjum yrði greidd 53 þúsund króna aukagreiðslu til viðbótar við desemberuppbót sína.

Slík viðbótargreiðsla var greidd út fyrir síðustu jól sem hluti af viðbrögðum stjórnvalda við efnahagsáhrifum faraldursins en ekki stóð til að endurtaka leikinn í ár.

Í síðustu viku lögðu fulltrúar flokka í fjárlaganefnd fram breytingartillögu við fjáraukalög þess efnis að slík greiðsla yrði greidd út aftur. Fagna þingflokkar Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar því að stjórnarmeirihlutinn hafi fallist á tillögu minnihlutans og samstaða náðst í fjárlaganefnd. Aukagreiðslan verður skattfrjáls og skerðingarlaus.

Margir höfðu lýst óánægju sinni með að stjórnvöld hafi ekki fyrirhugað að greiða aukagreiðsluna þetta árið. Hefur staða öryrkja verið borin saman við stöðu atvinnulausra sem fá um 92 þúsund króna desemberuppbót þetta árið.

Í ár fá öryrkjar til samanburðar 48 þúsund króna desemberuppbót en í fyrra var ákveðið að brúa þetta bil með 50 þúsund króna eingreiðslu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×