Í tilkynningu frá Erni segir að samkomulagið sé gert í ljósi þess að eftirspurn í innanlandsflugi hafi dregist mikið saman í faraldrinum og að ljóst sé flug til Eyja muni ekki hefjast, að óbreyttu, að nýju á markaðslegum forsendum.
„Að mati ráðuneytisins var því talið nauðsynlegt að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugi til og frá Vestmannaeyjum í vetur á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mjög mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum.
Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 þegar ekki var annað í stöðunni en að leggja niður flug sökum minnkandi eftirspurnar . Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi möguleika á að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að flug í kringum hátíðirnar verði með aðeins öðrum hætti en þegar föst áætlun byrji í upphafi nýs árs og sé fólki bent á áætlun og upplýsingar um flug á vefsíðu félagsins ernir.is, en fyrsta flug verður á Þorláksmessu.