Þungaðar konur verða hvattar til að bíða ekki með að láta bólusetja sig eða þiggja örvunarskammt. Þá verður lögð áhersla á að kynna þá hættu sem óléttum konum og ungabörnum stafar af Covid-19.
Reynslusögur þungaðra kvenna verða birtar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og konur upplýstar um að bóluefnin gegn Covid-19 séu örugg fyrir óléttar konur og að þau hafi engin áhrif á frjósemi, að því er Guardian greinir frá.
Opinber gögn frá þeim aðila sem hefur eftirlit með þungunum sýna að 96,3 prósent óléttra kvenna sem lagðar voru inn með Covid-19 einkenni frá maí til október í fyrra voru óbólusett. Þriðjungur fékk einhvers konar öndunaraðstoð.
Í um 20 prósent tilvika þurfti að framkalla fæðingu fyrir tímann til að stuðla að bata hjá konunni og um 20 prósent barnanna þörfnuðust sérstakrar aðhlynningar.
Frá því í apríl í fyrra hafa 84 þúsund breskar þungaðar konur fengið einn skammt af bóluefni og fleiri en 80 þúsund tvo.