Uppfært klukkan 13:50.
Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að skipverjinn sem leitað var að sé fundinn og leitinni sé lokið.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst ábending um að bátur væri hugsanlega strandaður við Engey í dag. Í samráði við hafnsöguvaktina í Reykjavík og fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra fór fram eftirgrennslan en engar upplýsingar voru í kerfum Landhelgisgæslunnar þess efnis að bátur hefði farið á sjó eða væri strandaður við Engey.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Þar segir að athugun Gæslunnar hafi leitt í ljós að bátur væri við Engey og hugsanlega væri einn um borð.
Þegar björgunarskip á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafi komið á staðinn hafi báturinn fundist mannlaus. Landhelgisgæslan boðaði í kjölfarið til leitaraðgerða með þyrlu Gæslunnar og öllum tiltækum sjóbjörgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu. Leitin stendur nú yfir.
Leitin stendur nú yfir og liggja engar frekari upplýsingar fyrir að svo stöddu.