Börn á aldrinum 5 til 11 ára voru boðuð í fyrri bólusetningu gegn veirunni fyrr í janúar. Þátttakan þótti ágæt en 46% þeirra barna sem voru boðuð mættu.
„Hún var bara nokkuð góð. Það var alveg upp í 60% í efsta aldurshópnum og svo fór þetta aðeins dalandi niður eftir því sem börnin voru yngri en bara nokkuð góð og miðað við svona ástandið á sýkingum hvað eru margir í sóttkví og margir í einangrun þá er hún bara nokkuð góð og svo er svo sem viðbúið, það hafa mjög margir fengið sýkingu síðan, þannig það er viðbúið að það verði kannski aðeins minni þátttaka núna í númer tvö,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Aðeins þrjár vikur munu líða á milli fyrri og seinni bólusetningar hjá börnunum.
„Það er yfirleitt farið eftir ástandinu á veirusýkingu hverju sinni hvað er látinn líða langur tími á milli og þegar það er svona mikil sýking í gangi þá er talið æskilegra að það sé styttra á milli.“
Ragnheiður Ósk segir lítið hafa verið um að börn hafi fengið aukaverkanir eftir fyrri bólusetninguna. Þá telur hún ekki að neikvæð umræða um bólusetningu barna komi til með að hafa mikil áhrif á mætinguna í bólusetninguna.
„Ég efast um það. Annað hvort fólk bara tekur þessa ákvörðun, foreldrar taka þessa ákvörðun, og svo sem örugglega hlusta á allskonar rök bæði með eða á móti og gera svo bara upp hug sinn. Þannig að við treystum bara foreldrum til þess. Það verður hver og einn að taka ákvörðun fyrir sig.“