Stjórnvöld á Grænlandi tilkynntu afléttingar á blaðamannafundi í dag. Grænlendingar geta því sleppt grímunum héðan í frá og engar takmarkanir eru á samkomum manna.
Misstrangar aðgerðir hafa verið í gildi milli svæða á Grænlandi, til dæmis var grímuskyldu aflétt á Austur-Grænlandi fyrir viku síðan. Nú gilda afléttingar hins vegar fyrir alla landsmenn.
Haft er eftir heilbrigðisráðuneyti Grænlands í frétt danska ríkisútvarpsins að faraldurinn hafi náð hámarki í stærstu borgum landsins og smit séu svo útbreidd að sóttvarnaaðgerðir geri lítið til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar þegar hér er komið við sögu.
Grænland fylgir með þessu í fótspor Dana, sem afléttu öllu 1. febrúar, og Svía en þar tók aflétting langflestra takmarkana vegna veirunnar í gildi á miðnætti.